top of page

Yfir götuna eftir kartöflum

Hlöðueldhúsið kaupir hráefni til matargerðar af grönnum sínum í Þykkvabæ og eftir atvikum

annars staðar á Suðurlandi.

Kartöflur eru fengnar í næsta húsi í bókstaflegum skilningi, í Önnuparti handan götunnar.

Þar er aðsetur framleiðslu bræðranna Guðmundar og Yngva Harðarsona.

Guðmundur býr í Önnuparti en Yngvi í Hábæ. Þeir hafa fylgst af áhuga og ánægju með framkvæmdum granna sinna við að breyta fyrrverandi útihúsum í Oddsparti í
matarupplifunarfyrirtæki með öllu tilheyrandi.
 

   „Amma okkar og afi, Sigríður Magnúsdóttir og Yngvi Markússon, áttu Oddspart en
    foreldrar okkar, Eygló Ingvadóttir og Hörður Júlíusson, áttu Önnupart. Fjölskyldurnar
    ráku félagsbú í kartöflurækt og í Oddsparti var líka fjárbú og kýr í fjósi. Við bræður
    hlupum hér um hlöðin í æsku og þekkjum hvern þumlung í húsunum þar sem
    Hlöðueldhúsið er rekið. Þar sem eldamennskan á sér stað voru í okkar uppvexti ær og
    lömb í króm og reiðhestar á básum. Veislusalurinn er í hlöðunni sem var á milli
    fjárhúss og fjóss. Amma og afi seldu jörðina 1991 og hann dó þá um vorið.


    Oddspartur tengist því æskuminningum okkar og við erum afar ánægðir með að  þangað              hafi flutt duglegt framkvæmdafólk með spennandi hugmyndir um nýjan atvinnurekstur.              Þykkbæingar yfirleitt eru hrifnir af því sem þarna er að gerast og framtak eigenda

    Oddsparts vekur líka mikla athygli annars staðar í sveitarfélaginu og víðar á Suðurlandi.

    Það er líka eftir því tekið að mjög er vandað til verka á allan hátt og hvergi kastað til höndum!


     Sérstaka athygli okkar vakti að suðurveggur hlöðunnar fékk að halda sér í upprunalegri               mynd og setur sérstakan svip á veislusalinn. Vigfús afabróðir okkar reisti hlöðuna                           upphaflega og sló upp fyrir veggjum með bárujárni. Hann féll frá ungur maður á

     árinu 1946 og afi og amma keyptu hlut hans í jörðinni 1949. Síðar stækkaði afi hlöðuna

     og notaði þá mótatimbur við steypuvinnuna. Hluti framkvæmdasögu fjölskyldu okkar

     blasir því við gestum Hlöðueldhússins og er skemmtilegur hluti af heildarmynd hússins.“

Þykkvibær 

Upplifun út af fyrir sig er að koma í Þykkvabæ, elsta sveitaþorpi á Íslandi, og rölta þar um byggðina. Íslendingar þekkja Þykkvabæ sem eitt helsta kartöfluræktarsvæði landsins og hafa margir hverjir margoft fengið jarðepli Þykkbæinga á diskana sína. Sumir jafnvel naslað í sig ljúffengt snakk frá Þykkvabæjar við  sjónvarpið á góðri kvöldstund heima en aldrei komið þangað. Auðvelt er að bæta úr því og verða sér jafnframt út um einstaka matarupplifun í Oddsparti í leiðinni!

•    Fyrstu heimildir um byggð í Þykkvabæ eru frá árinu 1220 og öldum síðar var talið að álíka margir byggju þar og í Reykjavík um það leyti sem höfuðborgin núverandi fékk kaupstaðarréttindi. Það þurfti þá bæjarfógeta og tvo lögregluþjóna til að halda uppi lögum og reglu í kaupstaðnum við Faxaflóa en í Þykkvabæ þurfti ekkert yfirvald til að halda íbúum innan ramma laganna. Þeir sáu um það sjálfir.
•    Þykkvabær hefur löngum verið talinn gott samfélag og mál manna að samstaða og félagshyggja sé þar meiri en víðast hvar annars staðar á Íslandi.
•    Útræði var nokkuð frá sandinum en oft slys enda ill lending.
•    Barnaskóli var stofnaður í Þykkvabæ 1892, fyrsti sveitaskóli Suðurlands.
•    Menningarsjóður gaf árið 1962 út bókina Þúsund ára sveitaþorp eftir Árna Óla. Þar fjallar hann um Þykkvabæ og Þykkbæinga frá ýmsum hliðum. Hann segir að Þykkbæingar hafi fyrrum verið einangraðir og ekki mjög mannblendnir. Þeim var og fundið það til foráttu að vera hrossakjötsætur. Kirkjan fordæmdi fólk sem borðaði hrossakjöt og taldi til höfuðsynda en Þykkbæingar lögðu sér hrossakjöt til munns til að afstýra hungursneyð og þótti það herramannsmatur. Siðavandir Sunnlendingar sáu sér þá leik á borði og ráku hrossahópa í Þykkvabæ til slátrunar. Heimamenn sáu um að lóga hrossunum og máttu hirða allt nema húðirnar. Eyrun urðu að fylgja húðum því hrossin voru eyrnamörkuð og mörkin og þannig gat hver hirt sína húð.
•    Í Þykkvabæ nútímans hafa langflestir atvinnu og viðurværi af kartöflurækt. Ferðaþjónusta er nokkur líka og rekið eitt hótel og eitt gistiheimili. Kirkja er á staðnum en skólahald hefur verið lagt af fyrir löngu og börn sækja grunnskóla á Hellu.
•    Félagslíf er blómlegt og eitt má nefna í því sambandi sem greinir að Þykkbæinga og aðra landsmenn. Þykkbæingar blóta ekki þorra heldur efna til kartöfluhátíðar ... 

 

Upplifun á Suðurlandi

 

Suðurlandið býður upp á fjölbreytni í ferðaþjónustu og mikla möguleika í útivist.  

Þykkvibær hefur stundum verið kallað þúsund ára sveitaþorp enda er talið að hér hafi frá því land byggðist verið byggðarkjarni,

Þykkvibær þýðir í raun þéttur bær.

Hlöðueldhúsið, Matarupplifun í Þykkvabæ, 16 km suður af Hellu 

Hotel VOS, 18 herbergja notalegt hótel

# Hellarnir við Hellu,  ævintýri neðanjarðar

#  Margir fossar 

#  Mörg falleg þorp

#  Glæsileg fjöll fylgja gestum á ferð þeirra um Suðurlandið, Hekla,       Eyjafjallajökull, Katla.  Jarðfræðin er eins og opin bók.

bottom of page