top of page

Allir taka þátt

A%20vinkonur_edited.jpg
Íslensk matarhefð á nútíma máta

Við (Hrönn og Þórólfur) stofnuðum og rákum Café Loka í 10 frábær ár en ákváðum að selja og flytja okkur í rólegra umhverfi en halda okkur við eldamennsku sem byggir á íslensku hráefni og íslenskum hefðum.
Nú tökum við á móti hópum sem fá að taka þátt í skemmtilegri eldamennsku, taka upp kartöflur eða klippa niður kryddjurtir sem við ræktum. Gaman er að rölta um Þykkvabæinn sem eitt af síðustu þorpunum á landinu sem standa undir því nafni.
Hlöðueldhúsið er vel útbúið kennslu og veislueldhús í fyrrverandi fjárhúsi  ásamt 100 m2 sal í áfastri hlöðunni.
Einnig hefur Hrönn flutt textílvinnustofuna sína, Textíll ehf. í Þykkvabæinn en er með lagerinn í Reykjavík.  Hafið samband í síma 865-8750

Í sátt og samlyndi við náttúru og umhverfi


Hlöðueldhúsið verður rekið í meðvitaðri sátt við umhverfi sitt og náttúru í víðum skilningi. Margir stórir og smáir þættir í starfseminni mynda heilsteypta hugmyndafræði í þeim efnum.
•    Hráefni til matargerðar er keypt af grönnum í Þykkvabæ og annars staðar á Suðurlandi eftir atvikum.
•    Matjurtir og kryddjurtir eru ræktaðar í sérstökum gróðurbragga í Oddsparti og þátttakendur í matarupplifun hverju sinni sækja sér þangað sjálfir krydd til matargerðar eða grænmeti á diskana.
•    Kartöflur, rófur, gulrætur og fleira er ræktað í garði við hlið gróðurbraggans. Það verður hluti upplifunarinnar að taka upp kartöflur og fara með beint í pottinn!
•    Lífræn efni sem falla til í eldhúsinu og í gróðurbragganum verða nýtt til moltugerðar og moltan síðan nýtt til ræktunar í bragganum. 
•    Hlöðueldhúsið er hitað upp með grunnvatnshita af lóðinni í Oddsparti. 600 metrar af vatnspípum voru plægðir niður á 1,2 metra dýpi og um þær rennur frostlögur í lokuðu kerfi. Hiti í jarðveginum er að jafnaði um 5 gráður á Celcíus árið um kring og varmadæla innanhúss tekur við +5 gráða frostleginum og skilar honum frá sér við -8 gráður. Þennan hitamismun notar tækið til að hita vatn í lokuðu kerfi sem tengt er ofnum í húsinu og krönum í eldhúsi og á snyrtingum. Kerfið í veitingasalnum er stillt á 21 gráðu og heita vatnið úr krönunum er 50-60 gráður. 
    
    Þessir orkutöfrar gerast sem sagt á lóð Oddsparts. Með þessu móti sparast um 75%     útgjalda miðað við ef rafmagn væri notað í staðinn til upphitunar og varmadælukerfið           borgar sig upp á hálfu þriðja ári eða þar um bil!
•    Rafmagnsbílar eru sérstaklega velkomnir í Oddspart. Við vegg Hlöðueldshússins er eitt hleðslustæði fyrir bíla heimafólks og gesta sem verður fjölgað í þrjú stæði innan tíðar. Hrönn hefur reyndar ekið um á rafmagnsbíl frá 2014 og Þórólfur ekur „twinbíl“ (rafmagn + bensín).
 
* * * 
* * * 


Útihúsum breytt í Hlöðueldhúsið 

Glæsilegur veislusalur og stórt tækjum búið og tæknivætt eldhús Hlöðueldhússins eru í rými sem hýsti á sínum tíma sauðfé og heyforða í Oddsparti í um 200 fermetra útihúsi en var síðast miðstöð mótorhjólafólks og aðsetur ferðaþjónustu og samkomuhalds. 

Núverandi eigendur tóku heldur betur til hendinni úti og inni og kostuðu miklu til svo koma mætti húsunum í það stand að stæðist allar kröfur sem lög og reglugerðir mæla fyrir um til húsnæðis og aðstæðna vegna veitingaþjónustu. Þeir fengu til liðs við sig hönnuði og iðnaðarmenn á heimaslóðum á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum en unnu mest sjálfir að verkefninu. Þá kom sér vel að í þessu þríeyki Hlöðueldhússins er smiður og þrautreyndur handverksmaður. Handbragð hans sést á flestu innan- og utanhúss.

Hús og jarðarpartur voru keypt vorið 2018, framkvæmdir hófust um áramótin 2018/19 að lokinni hönnunar- og teiknivinnu.  

Í júní 2020 fékk Hlöðueldhúsið rekstarleyfi að undangengnum öllum tilskildum úttektum.

Hönnun og hugmyndir               Marey arkitektar, Selfossi.

Eigendur                                        Hrönn Vilhelmsdóttir og Þórólfur Antonsson
Hönnun burðarþols og lagna    Teiknistofa Páls Zóphoníassonar, Vestmannaeyjum.
Rafmagnhönnun                          Dolli raflagnahönnun, Reykjavík.
Byggingastjóri                               Valgeir Steindórsson
Yfirsmiður                                     Haukur Sigvaldason
Raflagnir og tilheyrandi             Magnús Magnússon
Pípulagnir og tilheyrandi           Markús Óskarsson
Varmadæla og búnaður             Fríorka varmadælur, Selfossi.
Tæki, tól, innréttingar o.fl.       BYKO, Bauhaus, IKEA, Verslunartækni, o.fl.    

Hirðljósmyndari                         Atli Rúnar Halldórsson sýslari                       

* * * 
* * * 
bottom of page